Almennt
Pétur Östlund - Heiðursviðurkenning 2012 Skoða sem PDF skjal Prenta út

alt

Á sýningunni Trommarinn 2012 sem haldin var 6. október síðastliðinn hlaut Pétur Östlund heiðursviðurkenningu fyrir ævistarf sitt. Hér birtist ræðan er Jónatan Garðarsson flutti við tilefnið:

Pétur Davíð Östlund, fæddist í New York í Bandaríkjunum 12. mars 1943 og ólst þar upp fyrstu árin. Móðir hans var María Markan óperusöngkona sem starfaði hjá Metropolitan óperunni, fyrst íslenskra óperusöngvara. Faðir hans var Bandaríkjamaður af sænskum ættum sem hét Georg Östlund. Fjölskyldan flutti til Trois Rivieres í Quebec í Kanada þegar Pétur var 7 ára gamall og bjuggu þau þar í fimm ár.

Árið 1955 þegar Pétur var 12 ára flutti hann með foreldrum sínum til Íslands. Georg faðir hans fékk vinnu hjá Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli og gekk Pétur þar í skóla en fjölskyldan bjó í Keflavík. Árið 1957 þegar Pétur var 14 ára sá hann auglýsingu í Service klúbbnum um ókeypis trommukennslu. Sá sem stóð fyrir kennslunni var Gene Stone, frægur bandarískur djasstrommari sem var nýkominn til landsins. Hann var í flughernum og hafði þann starfa að leika á trommur í djasshljómsveit flughersins hér á landi. Gene Stone spilaði líka mikið með íslenskum djassleikurum á djammsessjónum. Pétur hefði ekki getað verið heppnari með kennara. Hann fékk æfingaplatta og kjuða hjá Gene Stone og byrjaði að æfa sig af miklum krafti.

Pétur tefldi töluvert á þessum tíma, en tónlistin varð fljótlega hans helsta áhugamál. Honum var boðið í Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar þegar hann var 16 ára gamall. Þetta var aðalhljómsveitin í Keflavík, og fór hún í frækilega ferð norður á Siglufjörð sumarið 1960 og spilaði á síldarböllum við miklar vinsældir í Alþýðuhúsinu.


Veturinn eftir spilaði Pétur með Neo kvartettinum í Reykjavík og var án nokkurs vafa einhver efnilegasti trommuleikari landsins. Árið 1962 skrifaði Haukur Morthens söngvari grein í Alþýðublaðið þar sem hann hrósaði glæsilegum ungum trommuleikara, sem hét Pétur Östlund. Hafði hann komið nokkrum
altsinnum fram á djasskvöldum í Tjarnarcafé og Næturklúbbnum og var orðinn eftirsóttur trommuleikari, þó hann væri ekki ennþá orðinn tvítugur.

Pétur starfaði í nokkur ár með Hljómsveit Finns Eydal, sem spilaði í Glaumbæ þegar honum var boðið að gerast trommuleikari í Bítlahljómsveitinni Hljómum frá Keflavík. Þessi hljómsveit var að gera sína fyrstu litlu plötu sem innihélt lögin Fyrsti kossinn og Bláu augun þín. Stuttu seinna tóku þeir upp nafnið Thor’s Hammer og gerðu heiðarlega tilraun til að slá í gegn úti í heim. Thor’s Hammer gerðu þrjár litlar plötur þar sem sungið var á ensku, eina fyrir bandarísku Columbia útgáfuna og tvær fyrir bresku EMI útgáfuna. Þessar plötur eru mjög eftirsóttar meðal plötusafnara um allan heim og selst platan Umbarumbamba fyrir mjög háar upphæðir.


Næstu árin spilaði Pétur með Óðmönnum, Heiðursmönnum og fleiri íslenskum hljómsveitum en kom einnig fram með frægum bandarískjum djasstónlistarmönnum sem spiluðu hér á landi á vegum Jazzklúbbs Reykjavíkur. Hann var oft fenginn til að spila inn á hljómplötur sem útgefandinn Svavar Gests gaf út, og var einn eftirsóttasti sessjón spilari landsins, löngu áður en sjálfstæð hljóðver tóku til starfa hér á landi.


Pétur flutti til Svíþjóðar árið 1969 en þangað fóru nokkrir íslenskir djasstónlistarmenn á þessum tíma. Hann spilaði m.a. með klarinettleikaranum Putte Wickman sem naut mikilla vinsælda. Svíar áttu erfitt með að segja Pétur svo að þeir kölluðu hann “Island” Östlund.


Árið 1974 var Pétur valinn í Nord Jazz kvintettinn sem var skipaður einum hljóðfæraleikara frá hverju Norðurlandanna. Hér á landi þóttu fréttirnar af þessari upphefð mjög merkileglar. Nord Jazz kvintettinn spilaði kvintettinn m.a. á Listahátíð og á djasshátíðum á Norðurlöndunum.


Pétur hefur spilað með fjölmörgum þekktum norrænum og bandarískum tónlistarmönnum í gegnum tíðina. Það er allt of langt mál að telja þá alla upp, en samt er rétt að geta þess að Pétur hefur t.d. spilað með Bandaríkjamönnunum Donald Byrd, Art Farmer, Dexter Gordon, Thad Jones, Clifford Jordan, Lee Konitz, Yusef Lateef, Benny Golson, Harry “Sweets” Edison, Clark Terry, Zoot Sims, Slam Stewart, John Scofield, Red Mitchell og Steve
altDobrogosz. Pétur starfaði lengi í hljómsveit Red Mitchell og seinna í hljómsveit Steve Dobrogosz.

Hann hefur líka spilað með hollenska munnhörpuleikaranum Toots Thielemans sem og danska bassaleikaranum Niels Henning Örsted Pedersen og píanistanum Ole Koch Hansen


Þá hefur Pétur spilað með ótrúlega mörgum sænskum tónlistarmönnum. Ég ætla aðeins að nefna nokkur nöfn: Arne Domnérus, Bosse Broberg, Claes Crona, Eje Thelin, Gunnar Svensson, Georg Riedel, Lars Gullin, Rune Gustavsson, Svante Thuresson, Bernt Rosengren og Monica Zetterlund, en svo hefur hann líka spilað með sænsku útvarps djasshljómsveitinni o.fl. o.fl.


Pétur hefur fengist við trommukennslu í Svíþjóð frá árinu 1973. Hann var aðal trommu kennari Konunglega tónlistarháskólans frá 1973 til 1992. Hann samdi merkilega kennslubók í trommuleik sem kom út 1981 og aðra sem kom út árið 2003. Á þessum árum þróaði hann sína eigin kennsluaðferð. Núna kennir Pétur við Tónlistarháskólann í Örebro.


Þó svo að Pétur Östlund hafi búið í Svíþjóð í meira en 40 ár hefur hann komið reglulega til Íslands til að kenna og spila með íslenskum tónlistarmönnum. Þannig hefur hann hjálpað til við að efla íslenskt djasslíf og stutt unga trommuleikara og aðra tónlistarmenn. Pétur hefur spilað inn á fjölda hljómplatna í Svíþjóð og hér á landi og gaf út sólóplötuna Power Flower árið 1997.


Pétur Östlund hlýtur heiðursviðurkenningu íslenskra trommuleikara árið 2012.

 Jónatan Garðarsson 6. október 2012

Dim lights Embed Embed this video on your site  

alt 

 

 

 

 

 
Birgir Jónsson - Trommari vikunnar 1.11.11 Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

Lesa meira...
 
Guðmundur R. Einarsson - Heiðursviðurkenning Trommarinn 2011 Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

Lesa meira...
 
Martin Davíð Jensen - Trommuleikari vikunnar Skoða sem PDF skjal Prenta út

 

Lesa meira...
 
Rúni W. Höjgaard - trommari vikunnar 26.06´11 Skoða sem PDF skjal Prenta út


Lesa meira...
 
<< Fyrsta < Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 Næsta > Síðasta >>

JPAGE_CURRENT_OF_TOTAL