Valmynd


Villa
  • XML Parsing Error at 1:86. Error 9: Invalid character
Skoða sem PDF skjal Prenta út

altTrommuleikari vikunnar hjá okkur er Kjartan Guðnason, betur þekktur sem Diddi.

Diddi byrjaði ungur að læra á trommur í Tónlistarskóla Seltjarnarness en seinna lá leiðin í Tónlistarskóla F.Í.H. Þaðan fór hann í framhaldsnám til Amsterdam, Hollandi. Diddi hefur komið víða við á glæsilegum ferli sínum, m.a. leikið með hljómsveitum á borð við Rússíbana (sem hann var einn af stofnendum af), hljómsveitinni Ske þar sem hann túraði með þeim um Skandinavíu, Bretland og Bandaríkin, J.J. Soul Band, Agli Ólafssyni, Þursaflokknum á mögnuðum endurkomutónleikum þeirra 2008, ásamt því að leika nú með sveitinni Menn Ársins. Diddi er jafnvígur á alla stíla og hefur fengist mikið við klassíska tónlist. Hann lék t.d með Sinfóníuhljómsveit Æskunnar frá 1987-1994 og hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1992 og Íslensku Óperunni frá 1989. Svo var hann slagverksleiðari í samnorrænni sinfóníuhljómsveit, Orkester Norden, árin 1994 og 1995. Auk þess hafur hann leikið með The Orchestra of the Eighteenth Century undir stjórn Frans Bruggen og ferðast með þeim um Evrópu og með Bach Collegium Japan og ferðast með þeim um Japan og Evrópu. Diddi kennir auk þess á slagverk við Skólahljómsveit Kópavogs. Við tókum kappan tali og lögðum fyrir hann nokkrar spurningar:

Hvað varð til þess að þú byrjaðir að tromma?

Frá 5 eða 6 ára aldri var ég farinn að búa til mitt eigið trommusett úr þvottaduftskössum, pottum og pönnum og spilaði með sleifunum hennar mömmu. Seinna smíðaði ég svo mitt fyrsta kjuðapar í skólanum. altÞegar ég var 10 ára átti ég allar Kiss plöturnar sem höfðu komið út og Peter Criss var fyrirmyndin. 11 ára gamall eignaðist ég mitt fyrsta trommusett. Ég keypti það fyrir blaðburðarpeningana mína. Þetta var í júní 1984, þá fór ég með mömmu og pabba í hljóðfæraverslunina Tónkvísl á Laufásveginum og keypti hvítt Dixon trommusett. Það kostaði 17.600 krónur, ég á enn nótuna. Mig langaði til að geta trommað eins og trommarinn í Kiss. Haustið 1984 byrjaði ég svo að læra á trommur hjá Árna Áskellssyni í Tónlistarskóla Seltjarnarness. Reyndar verð ég líka að nefna Skarphéðin H. Einarsson í þessu samhengi því hann kenndi mér svo margt í Lúðrasveit Seltjarnarness.

Hverjir voru helstu áhrifavaldar þínir?

Af íslenskum trommurum nefni ég fyrstan Sigtrygg Baldursson. Ég hlustaði mikið á Sykurmolana og þá helst "Life´s too good" sem er ein af mínum uppáhalds plötum. Í kjölfarið hlustaði ég á Kuklið og Þeysarana og trommustíllinn hans hafði mikil áhrif á mig. Aðrir áhrifavaldar eru Gulli Briem, Matthías Hemstock, Ásgeir Óskarsson og Pétur Grétarsson.

Af erlendum trommurum eru það menn eins og Vinnie Colaiuta, Peter Erskine, Steve Gadd, Terry Bozzio og Peter Criss.

Tónlist Frank Zappa og hans meðspilarar byrjuðu að heilla mig þegar ég var um tvítugt. Þar er botnlaus brunnur góðrar tónlistar og framúrskarandi hljóðfæraleikara sem ég lít mikið upp til, klárlega mikill áhrifavaldur!

Aðrir tónlistarmenn sem ég hef unnið með hafa haft mikil áhrif á mig eins og Paul Zukofsky, fiðluleikari og stjórnandi, Einar Kristján Einarsson, gítarleikari, Tatu Kantomaa, harmonikkuleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari.

Hvað er á döfinni?

Ég kenni á trommur/slagverk í Skólahljómsveit Kópavogs ásamt því að spila í Þjóðleikhúsinu í Oliver Twist og framundan verð ég að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku Óperunnar. Ég spila reglulega með bandinu mínu, Menn ársins, og í lok janúar spila ég á tónleikum með tónskáldinu Daníel Bjarnasyni. Eftir það mun ég spila með nútímatónlistarhópnum Caput.

Hvernig græjur ertu að nota?

titleÉg nota Yamaha Hot Red 9000 Recording Custom sett, sem ég keypti árið 1991, og Zildjian/Paiste cymbala. Innan um finnast skrýtin en skemmtileg eintök, ég á t.d. einn skemmtilegan 22" Dixon crash/ride, 12" Tosco hi-hat cymbala og þó nokkra Wu-Han Kínacymbala. Stærðirnar á trommunum eru 8", 10", 12" toms og 14"og 16" floor-toms og 20" bassatromma. 7x14 Noble & Cooley snerill og 4x14 Ludwig All Metal Standard Model snerill frá árinu 1925!

Áttu einhver holl og góð ráð fyrir þá sem eru að byrja?

Mér finnst mikilvægt að verja tíma í grunnæfingarnar (rudiments). Þær skila sér heldur betur! Ekki byrja of geyst, frekar að setja sér raunhæf markmið og gleðjast yfir árangrinum. Hita upp fyrir gigg. Koma sér upp rútínu til að fá blóðflæðið í höndunum í gang, það þarf ekki að vera lengi (5 mín.). Huga að líkamsstöðu við hljóðfærið og passa eyrun, þau skipta máli. Hlusta á sem mest af allskonar tónlist, spila með öðrum og reyna að læra sem mest af þeim. Og síðast en ekki síst, hafa ánægju af þessu.

Takk Diddi!

www.myspace.com/mennarsins